Hamingjan, tilgangur lífsins og svoleiðis…

Vegna fjölda áskoranna (tveggja) ætla ég að birta hérna hluta af ræðu sem ég hélt í góðra vina hópi á dögunum.

Í dag ætla ég að gusa yfir ykkur vægum skammti af heimspekilegum vangaveltum mínum um tilgang lífsins og hvernig því sé best lifað svo að við séum hamingjusöm. Smá svona heimspekilegt léttmeti.

Flest þekkjum við einhvern sem hefur þurft að endurmeta líf sitt í skyndi, tilgang þess og framkvæmd. Sum af okkur hafa jafnvel þurft að gera það sjálf. Oft eru ástæðurnar fyrir nýrri forgangsröðun ekki það sem við kjósum okkur, eins og veikindi eða slys, en í mörgum tilfellum reynast þessi áföll afskaplega jákvæðir vegvísar sem við getum öll lært af, og ef við getum lært af þeim án þess að upplifa einhverjar hörmungar, þeimur betra.

Það sem læra má af fólki sem hefur lent í aðstæðum sem þessum er að við nýtum tímann okkar oft alls ekki nógu vel í það sem skiptir okkur mestu máli, að lifa lífinu lifandi, fyrir okkur sjálf og fólkið í kringum okkur. Sjáið bara .:hér:.

Ég verð fertugur um daginn, og við það stressaðist ég allur upp. Ég ætlaði að vera búinn að gera helling af hlutum þegar ég væri orðinn fertugur. Tvítugi ég ætlaði nú nánast að vera sestur í helgan stein þá. En núna, þegar á hólminn er komið, er fertugi ég bara tvítugi ég með minna hár, meiri ábyrgð og reynslu og stærri vömb, steinhissa á því hvert öll árin fóru.

Þetta gerðist hratt. Ég á enn eftir að sjá meirihlutann af hnettinum, ala börnin mín upp til að verða góðir og hamingjusamir einstaklingar, kafa með höfrungum, eignast draumahúsið mitt með litla gróðurhúsinu, skrifa bókina mína, skilja afstæðiskenninguna nógu vel til þess að geta útskýrt hana fyrir öðrum, og læra að setja saman IKEA húsgögn án þess að það séu skrúfur afgangs.

Og um leið og ég steig inn í það sem óumdeilanlega er tölfræðilegur ‘seinni hálfleikur’ lífs míns, rann upp fyrir mér nokkuð sem mig hafði grunað ansi lengi án þess að þora að horfast í augu við það, nefnilega að það er ekki minnsti möguleiki að ég nái að gera allt það sem ég ætla að gera áður en ég dey áður en ég dey. Ekki séns. Og það jafnvel þótt að ég verði svo heppinn að búa við góða heilsu, sem er ekki gefið heldur.

Þannig komst ég að þeirri niðurstöðu að það sé alveg gráupplagt að nota tímann sem eftir er eins gáfulega og mér ber gæfa til. Og hvernig gerir maður nú það? Merkari menn en ég hafa velt fyrir sér tilgangi lífsins og leitinni að hamingjunni og enginn er ennþá búinn að komast að hinni einu sönnu niðurstöðu sem virkar fyrir alla.

Svo ég gerði bara eins og allir nútímavæddir tækninördar, og spurði internetið. Ekki lýgur það. Og internetið svaraði:

Lifum í núinu.
Þetta heyrir maður oft. Hljómar rosalega vel, og er eitthvað sem ég er sjálfur ægilega lélegur í. Ég velti mér reyndar lítið upp úr fortíðinni, enda lítið sem ég get gert í henni nema draga lærdóma af mistökum, en ég er manískur skipuleggjari, og reyni alltaf að vera skrefi á undan.

Yfirleitt þýðir það að ég er alltaf að minnsta kosti einu skrefi fram úr sjálfum mér. Í staðinn fyrir að stoppa og njóta þess sem ég hef, vinn ég hörðum höndum að næsta takmarki, og þegar ég næ því er ég of upptekinn af þarnæsta takmarki til þess að njóta þess að hafa náð hinu.

Vertu Jákvæð/ur.
Ég varð fljótt var við að í mis-vísindalegum bókmenntum hamingjuleitarinnar er oft er nefnd til sögunnar jákvæðni. Það kemur sér strax betur fyrir mig, því ég er yfirleitt fáránlega jákvæður. Og ég hef séð jákvæðni velta stórum steinum og vinna lítil kraftaverk í öllum hornum, en ég hef aldrei séð neikvæðni gera kraftaverk, og á ekkert frekar von á því að fá að upplifa það. Auðvelt mál að velja hér. Jákvæðni vinnur.

Í leiðinni getum við afgreitt að hatur og biturð gera okkur ekki gott. Ég heyrði góða samlíkingu um daginn, hatur er eins og eitur sem við tökum sjálf í von um að einhver annar deyi. Betri útskýringu á þeirri tilfinningu hef ég ekki heyrt. Málið afgreitt. Skáldið orti: verum hress, ekkert stress.

Og talandi um stress. Það eru allir á internetinu sammála um að of mikið stress sé vont.

Ég vinn mjög stressandi vinnu fyrir fólk sem veit sjaldnast hvað það vill, en veit að það átti að vera tilbúið á fimmtudaginn í síðustu viku. Ég hef lúmskt gaman að stressi, en of mikið af hinu góða fellir okkur, eins og ég fékk einu sinni að prófa á eigin skinni.

Meðalið við hversdagsleikanum, og um leið lækningin við stressi, er andleg líkamsrækt. Það hváir enginn ef maður skottast í ræktina að ná af sér nokkrum líkamlegum aukakílóum, en færri skilja að það sé nauðsynlegt að göfga andann, þegar það er hægt að sitja heima yfir ömurlegu sjónvarpsefni.

Árangur andlegrar líkamsræktar er sjáanlegur utan á okkur, og gerir okkur mjög auðveldlega hamingjusamari mannverur, sem brosa oftar, og laða þannig auðveldlega að sér góða hluti. Og það þarf ekki að setja sig í neinar sérstakar stellingar eða kaupa sér skó til þess að iðka hana. Andann eigum við að virkja með öllum tiltækum ráðum. Ímyndunaraflið, sköpunargleðina, aðdáunina á öllu í kringum okkur nema Kallakaffi. Hér hjálpar einfaldur lífstíll.

Við styrkjumst þegar við ræktum vináttu við annað fólk og fjölskyldu okkar, þegar við látum gott af okkur leiða, hugsum um hlutina í stærra mengi en okkur sjálf og tímann sem við lifum í varðar. Og þegar við finnum frið. Internetið var sammála mér um að friður væri mikilvægur.

Eins og þið heyrið er þetta fáránlega einfalt. Það eina sem við þurfum að gera á hverjum degi er að forgangsraða lífinu þannig að við séum alltaf að nýta tímann í það sem gangast okkur best til vellíðunar okkar og fólksins sem skiptir okkur mestu máli. That’s all.

Jú, og dauðinn
Internetið sagði mér líka að einhver hefði sagt að óttinn við dauðan væri fáránlegur, en það væri ástæða til þess að óttast að fara frá án þess að hafa lifað.

Og einhvernveginn virðist það alltaf auðveldara og skemmtilegra að lifa þegar blessað sumarið er komið og sólin fer að skína á okkur.

Skáldið Ásbjörn Kristinsson Morthens orti:

Sumarið er tíminn

þegar hjartað verður grænt

og augu þín verða himinblá,

ójá.

Ég skil reyndar ekkert í þessum texta, en stend mig ítrekað að því að muldra hann með sjálfum mér þegar veðrið er gott.

Jæja, nú er ég búinn að afhjúpa fyrir ykkur tilgang lífsins og lykilinn að hamingjunni í stuttu sjálfshjálparbókarformi, þannig að það er ekkert annað eftir að óska ykkur gleðilegs sumars, og takk fyrir að koma og heimsækja rústir þessa yfirgefna bloggs.

Paradísarheimt

Á þessum blauta og kalda steini í Norður-Atlantshafinu keyra skítugir vælubílarnir vonleysislega um á slitnum dekkjum og anna engan veginn útköllum. Það þarf að passa sig verulega í öllum samræðum, ekki minnast á ríkisstjórnina, ekki tala um Icesave, myntkörfulán, bankana, bensínverðið, útrásarvíkingana, sjónvarpsdagskrána, Davíð, bleikt.is og gengið. Öll þessi viðfangsefni gera það að verkum að annars dagfarsprútt fólk breytist á svipstundu í froðufellandi röflgosbrunna, öllum til ama og leiðinda.

Fyrir vikið tala bara allir um Tobbu Marínós og Jón Stóra.

Í gegnum þykkar rúðurnar á gjaldþrota amrískum pallbílum kinka pelsklæddar miðaldra konur kolli við undirleik réttmætrar reiði þáttastjórnenda Útvarps Sögu, þar sem myrkasti hluti þjóðarsálarinnar hópast saman í forpokaðri og einangrunarsinnaðri rasistasturlun.

Einu má gilda þegar mjóróma raddir benda á að tveir milljarðar manna í heiminum þurfi að lifa á undir tveimur dölum á dag, og að það sé ekki alvöru keppnisfátækt að þurfa að neita sér oftar um lúxus. Að við höfum það alls ekki svo slæmt þegar á heildina er litið.

En örvæntið ekki. Skammt frá höfuðborg væluklettsins er nefnilega vin í eyðimörkinni, meðal við bölmóðnum. Nánar tiltekið í Grímsnesi.

Um páskana eyddi ég tveimur dögum á Sólheimum. Sá merkilegi staður var stofnaður af enn merkilegri konu, Sesselju Sigmundsdóttur, sem tileinkaði líf sitt aðhlynningu þeirra sem minna máttu sín.

Upphaflega sinnti þessi fyrsti umhverfissinni Íslands munaðarleysingjum. Síðar tók hún upp á arma sína þroskaheft fólk, en ‘fávitarnir’ voru jafnvel geymdir í útihúsum á þessum tíma, eða upp úr 1931.

Kraftaverkin gerast þarna enn þann dag í dag.

Þá tvo daga sem ég dvaldi á Sólheimum sá ég fleiri bros en allt árið 2010. Ég henti mér í skemmtilegar samræður við bæði vini og ókunnuga, sá afrakstur listamanna staðarins og jákvæðan drifkraft fólks sem starfar heilshugar að því að þarna sé athvarf fyrir opna og blandaða byggð andlega fatlaðra og annarra íbúa, hvað sem á gengur.

Eins og flestir þeir sem hafa fengið að sjá í nærmynd hvað fer fram þarna, varð ég heillaður. Á Sólheima fer ég aftur í kreppufrí.

6 ára dóttur minni varð að orði að hún óskaði þess að hún væri svolítið rugluð, svo að hún fengi að læra að gera kerti. Ég flissaði inni í mér yfir orðalaginu, en skildi alveg hvað hún var að fara.

Mynd dagsins er af mér og einum merkasta núlifandi Íslendningnum, nafna mínum Reyni Pétri, en við áttum skemmtilegar samræður um trúmál og páska, klippingar myndbanda í tölvum og Facebook.

Petur og Reynir Petur

Til vinstri, Pétur. Til hægri, Reynir Pétur.

Ég vil ekki hóta neinu…

…en síðustu 2 ár er ég búinn að vera duglegur á Twitter. Og ég er líka búinn að vera duglegur á Facebook. Og ég er ekki búinn að vera rassgat duglegur að blogga.

Svo kíki ég stundum hingað til að rifja upp forna tíma og gamlar bloggfærslur. Ég hef margoft verið ansi næri því að eyða þessu bloggi, en alltaf hætt við. Og það er staðreynd að sumt það sem mig langar til að tjá mig um rúmast ekki í 140 orðum, eða í kommentakerfi.

Núna er moggabloggið sem betur fer nánast dáið, og allir þeir sem froðufelldu þar eru búnir að læra á Facebook eða að bíða óþolinmóðir á línunni hjá Útvarpi Sögu eftir að geta talað á einhvern um hvað þeim finnst um Icesave.

Það er kannski kominn tími til að rúlla út nokkrum uppsöfnuðum bloggpóstum. Það er allavega kominn Facebook like takki hérna. Sem er góð byrjum.

Og hér hafiði það bæði tvö: Blogg um blogg. Tæknin er ótrúleg.

Sjáum hvað setur.

Gestablogg – góður dagur í Stjórnarráðinu

Eins og þið vitið eflaust er búið að sinna þessum vettvangi lítið síðustu mánuðina, en einhverra hluta vegna hef ég ekki tímt að rífa það niður. Og það var eins gott, því hér er gestablogg sem mér barst frá vini mínum Arnari Knútssyni.

Arnar er praktískur maður, og hér er hans tillaga að góðum og afkastamiklum vinnudegi hjá þeim sem starfa að endurreisn Íslands.

8:30 Jóhanna og Steingrímur hittast í forsætisráðuneyti, stutt kaffispjall og síðan sest niður til fundarhalda ásamt ritara úr forsætisráðuneyti.  Slökkt á farsímum.

08:50 Eftirfarinn tölvupóstur sendur til Páls Hreinssonar, form. rannsóknarnefndar um bankahrun: “Sæll Páll, við þurfum skýrsluna eigi síður en á mánudagsmorgun (1. febrúar). Þetta er ekki ósk, þetta er skipun.  Kveðja, J & S.”

09:00 Lagafrumvarp um tafarlaust afnám bankaleyndar skrifað upp.  Sent með tölvupósti til þingmanna og viðeigandi nefnda.  cc: til sérstaks saksóknara.

09:20 Lagafrumvarp um tafarlaust afnám verðtryggingar.  Sent með tölvupósti til þingmanna, viðeigandi nefnda og Seðlabanka.  Ritara falið að senda tölvupóst til lífeyrissjóða og stærstu fjármagnseigenda með skilaboðunum “Þetta verður erfitt en þið verðið bara díla við þetta”.

09:40 Frumvarp um jafnt atkvæðavægi allra landsmanna í kosningum gert.  Textinn getur t.d. verið svona “Í alþingiskosningum gilda öll atkvæði jafnt, óháð búsetu”.  Og fyrst þetta var svona auðvelt er ákveðið að bæta við setninunni. “Heimilt er að greiða atkæði rafrænt, í gegnum kerfi Reiknistofu bankanna sem í daglegu tali kallast heimabanki.” Frumvarp sent til þingmanna í tölvupósti.

09:45 Fyrningarleið fiskveiðiheimilda.  Eftirfarinn tölvupóstur sendur á framkvæmdastjóra Landssamband Íslenskra Útvegsmanna og afrit á stjórnendur bankanna.  “Vinsamlegast athugið að kvóti allra fiskveiðiskipa verður fyrndur að fullu á næstu 10 árum.  Ef þið treystið ekki til þess að stunda rekstur yðar á þeim forsendum eruð þið beðnir um að skila prókúru (og lyklum) að fyrirtæki ykkar til viðkomandi bankastjóra.”

09:50 Stutt kaffihlé.  Aðrir ráðherrar mæta í stjórnarráð.

10:10 Öllum ráðherrum gert að senda eftirfarin skilaboð til stjórnenda viðeigandi ríkisstofnana: “Virðulegi embættismaður.  Héðan í frá er þér gert að fara í einu og öllu að lögum og reglum sem gilda um stofnun yðar.  Þar með talið er að reka stofnunina innan þess ramma sem fjárlög leyfa.  Treystir þú þér ekki til að gera slíkt er þér hér með boðið að segja tafarlaust upp og þiggja viðeigandi laun á uppsagnarfresti, þó aldrei lengur en 6 mánuði”.  (t.d. gæti Menntamálaráðherra byrjað á Páli Magnússyni á RÚV).

10:30 Ráðherrum gert skylt að eyða restinum af deginum á meðal þegna sinna með heimsóknum í fyrirtæki, skóla og á fjölfarna staði.  Þar skal ráðherra ræða við fólk og spyrja þau hvað þeim finnst mest aðkallandi vandi, hvað þegnunum þyki helst þurfa að gera (t.d. skuldavandi heimila).  Og heimaverkefni ráðherra verður að koma með þá punkta á næsta fund ríkisstjórnar sem verður haldinn á sama stað og á sama tíma, degi síðar.

10:40 Orðunum “skjaldborg” og “heimili” flett upp í Orðabók Menningarsjóðs.  Ritari tekur ljósrit af blaðsíðum og dreifir til allra fundarmanna.  Fundi slitið.

10:45 Ritari klárar fundargerð, hún samþykkt og send með tölvupósti á fjölmiðla.

11:00 Blaðamannafundur haldinn á tröppum Stjórnarráðuneytis og almenningur upplýstur um morgunverkin.

Fyrir hádegi ættu stjórnvöld okkar að vera komin langt með að leysa mest aðkallandi mál dagsins og þá er hægt að nota restina af deginum til að leysa Icesave.

Endurtakist eftir þörfum.

Að vera ritstjóri í dag…

Kannski er það bara ég.

Ég fæ engan prentmiðil heim til mín af því að blaðberar Fréttablaðsins vilja það ekki. Ég sakna þess ekkert.

Ég fæ allar mínar fréttir af netinu og útvarpinu þegar það á við. Viðtöl og greinar úr tímaritum. Sjónvarpsfréttir og viðtalþætti læt ég að mestu leyti eiga sig því ég er lítið fyrir kreppuklámið sem þar er í boði.

Mér finnst ekki neitt einasta merkilegt að vera ritstjóri á deyjandi trjámiðli sem blæðir peningum. Mér finnst það álíka fínt djobb og að vera innkaupastjóri á vídeóleigu.

En, kannski er það bara ég.

Innkaup í laumi

Þetta er einfalt. Áður en maður hefur ferlið, er rétt að líta vandlega í kringum sig, til þess að tryggja að enginn sem skipti mann máli sé á staðnum. Maður tekur bókina og setur hana vandlega inn í eitthvað nógu áberandi klámblað, sem maður verður þó oft að tryggja sér á annarri hæð í búðinni.

Velja ber klámblað með nógu framstæðum og stórum brjóstum, eins glennulegt og kostur er á, en passa að um venjulegt almennt keppnisklámblað sé að ræða, ekki sérhæft blað fyrir fólk sem hefur mök við girðingarstaura eða er með stólpípublæti.

Með bókina nú vel falda inni í klámblaðinu getur maður nú gengið óhikað að kassanum. Ef maður þekkir einhvern sem maður hittir, gerir það ekki neitt. Ef það er maður, finnst honum þú bara sniðugur að kaupa retró-klám á pappír eins og í gamla daga. Ef þú hittir konu á hún eftir að dást að því hvað þú ert opinn og ófeiminn karakter, og tala síðan illa um þíg í saumaklúbbi.

Það sem mestu máli skiptir er að nú getur þú gengið að kassanum. Nú þarftu bara að passa þig að afgreiðandinn í bókabúðinni sjái og skilji að þú sért ekki að stela bókinni, því þá fara öll góð plön í vaskinn. Afgreiðslufólk í bókabúðum veit upp á hár hvað er í gangi, og rukkar þig fyrir bókina, vefur henni samviskusamlega inn í klámblaðið aftur, og setur síðan allt klabbið ofan í poka sem eru bara hálf-gegnsæir.

Já góðir gestir, svona kaupir maður sér vísindaskáldsögur.

Mér finnast vísindaskáldsögur með merkilegri bókmenntum okkar tíma, fullar af heimspekilegum vangaveltum um framtíð mannkynsins og auðsannanlegur hvati tækniþróunar í heiminum. Þær eru því miður iðulega myndskreyttar þannig að venjulegar manneskjur geti ekki annað en skammast sín fyrir að kaupa þær.

Ég er ekki að grínast. Hér eru nokkur dæmi um frábærar vísindaskáldsögur eftir stórkostlegan höfund myndskreyttar af smekklausum hálfvitum sem hafa mjög líklega aldrei lesið þær. Þetta eru kannski ýkt dæmi, en engin einsdæmi.Meik!

Þetta hefur svosum allt gengið mjög vel, en ég gat ekki verið viss um að þetta lag hefði meikað það í alvörunni fyrr en ég fékk fréttir af því í gær að það væri notað í spinningtímum. Þá fyrst getur maður farið að panta sér gullfelgur…

Þegar stórt er spurt…

Þegar maður er búinn að halda úti bloggi lengi, eru ötular leitarvélar búnar að naga í sig hvert einasta orð, og senda fólk óhikað á síðuna í leit af svörum við hinu og þessu.

Ekki er ég viss um að þessi gestur, sem kom í heimsókn klukkan kortér í níu í morgun hafi fundið svarið við fyrirspurn sinni á síðunni minni, en ég vona þó að einhversstaðar þarna úti sé gott svar til reiðu. Best að eyða allri óvissu.

Er það bara ég?

Eða er alltaf yndislegra að koma út úr Kolaportinu en að fara inn í það?

Að vera Íslendingur

Litla þjóðin sem sýgur dæsandi upp í nefið rétt handan við mörk hins byggilega heims er í upplausn.

Gamla slagorðið ‘Þetta reddast’ á ekki alveg nógu vel við innan um logandi rústir hluta sem redduðust bara ekki neitt. Við þurfum nýtt slagorð, það er alveg á hreinu.

Vörumerkið Ísland hefur hrapað frá því að vera samnefnari fallegs landslags, vergjarnra miðnætursólarlýstra klúbbakvenda og draumkenndrar og framúrstefnulegrar tónlistar, niður í að vera samnefnari skulda, svika og pretta. Þjóðin sem fór á hausinn.

Eitt hefur þó lifað af óvæginn bálköst breytinganna, og það er landlægur þjóðernishroki Íslendinga.

Þegar einkaþoturnar hnituðu hringi í kringum Reykjavík og afmælisveislur viðhéldu lífsstíl hnignandi poppgoðsagna vorum við best. Við vorum fallegust, gáfuðust og ríkust, áttum hreinasta vatnið, fallegustu konurnar og vorum búin að endurhanna fjármálaheiminn þannig að við gátum ekki tapað. Við gíruðum okkur í drasl til þess að geta fengið að minnsta kosti lítinn sopa úr smekklausum brunni ofgnóttarinnar, og fá að lifa á eigin skinni veraldlega drauma sem höfðu hingað til virst utan seilingar.

Hetjurnar okkar voru ekki lengur einhverjir íþróttaplebbar úr Æskunni eða skítblankir tónlistarmenn, nei, uppi á veggjunum okkar og á blaðastöndum héngu myndir af þéttholda fjármálafrömuðum úr veislum þar sem boðið var upp á kóalaþindir og fálkaegg, eða fyrir framan bíla sem kostuðu eins og einbýlishús. Burt með tár, bros og takkaskó, inn með launablað Frjálsrar Verslunar.

Ísland var best. Þeim sem ræsktu sig og bentu á að keisarinn labbaði um á slátrinu var bent á að þeir væru öfundsjúkar smásálir sem skildu hreinlega ekki hvað við værum mögnuð þjóð.

En þetta var ekki upphafið á þjóðernishrokanum, heldur mögulega ein af afleiðingum hans, og kannski hans ljótasta birtingarmynd. Löngu áður en þetta góðærisvesen reið yfir var byrjað að kenna okkur í skólum hvað við værum sérstök.

Alveg frá sjálfstæðisbaráttu okkar hefur allt verið gert til þess að kenna okkur þá sögu að við séum stórmerkileg þjóð, sterkari og gáfaðri en almennt gengur og gerist. Í grunnskóla sátu komandi auðsugur undir eilífum áróðri um hetjuskap og styrk. Sögubækurnar okkar spara ekki stóru orðin, við vorum frábær. Aðrir níddust á okkur. Sérstaklega Danir. Svo brutumst við af okkar yfirnáttúrulega styrk fram og börðumst fyrir réttlæti og sjálfstæði. Og unnum. Svo unnum við stríð við Breta. Af því að við vorum best.

Fáum orðum var farið um af hverju við hefðum í gegnum tíðina verið ósjálfbjarga moldarkofaaumingjar deyjandi úr hungri við árbakka þar sem fiskurinn hoppaði um, ólæs og heimsk fyrir utan þá sem höfðu borið gæfu til að komast til útlanda og koma heim með smá brot af menningu. Ísland varð aftur þjóð eftir langvarandi aumingjaskap þegar Marshallaðstoðin barst okkur eftir stríð, ódýr kaup nýja stórveldisins á landi sem lagði sig á bakið fyrir sokkabuxur og biskví.

Núna þegar við sitjum og horfum skelfingu lostin á bensínlepjandi myntkörfurnar í hlaðinu í gegnum glugga sem við getum ekki borgað af, hefði mátt búast við því að dagur auðmýktarinnar væri upp runninn á skerinu nýríka. Að við uppgötvuðum kannski og viðurkenndum fyrir okkur eitt augnablik að við erum síst merkilegri þjóð en aðrar.

En íslenska þjóðarsálin er smásál sem kann sér ekki hóf í neina átt. Vörn er besta sóknin.

Þetta var ekkert okkur að kenna. Enn er verið að níðast á okkur. Auðsugurnar stálu af okkur og níddust á okkur. Bretar níðast á okkur. Hollendingar níðast á okkur. Fyrir það eitt að gráðug illmenni stálu skrilljónum af þeim undir okkar ábyrgð og nafni. Uss, þeir hefðu nú átt að vita betur en að fjárfesta í þessum sjóðum. Þetta var of gott til að vera satt, þeir geta bara sjálfum sér um kennt.

Nágrannaþjóðir okkar eru illgjarnar og heimskar af því að þær hlaupa ekki til og lána okkur strax peninga skattgreiðenda sinna án ábyrgðar beint í þrotabúið á okkur.

Við erum ennþá merkilegri en aðrir, við höfum bara verið beitt órétti. Og nú sem aldrei fyrr þarf að safnast saman undir þjóðfánanum og standa saman.

Á bak við allan hroka býr minnimáttarkennd. Fólk sem lifir í sátt og samlyndi við aðra, sem og sjálft sig, þarf ekki á hroka að halda.

Þótt að meginþorri okkar beri ekki ábyrgð á því hvernig fór, er þetta kjörið tækifæri til þess að taka upp betri gildi og meiri auðmýkt en áður. Taka til og henda því sem ekki nýtist okkur. Þar má fyrstan nefna þjóðernishrokann. Við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir að búa hérna. Við erum ágæt, og eigum okkar kosti. Landið okkar er áfram fallegt.

En gleymum því ekki að vera Íslendingur er bara að vera fánaberi meðaltals þjóðarinnar. Og ef meðaltal þjóðarinnar ætlar að halda áfram í blindni að selja að hér búi merkilegri útgáfur af Homo Sapiens en í öðrum löndum, þá er ég bara ekki rassgat stoltur af því að vera Íslendingur.

Ég veit nefnilega betur. Ég hef búið erlendis.

Börnunum mínum mun ég ekki kenna að þau séu betri en aðrir af því að þau fæddust nákvæmlega hér. Þeim mun ég kenna eins vel og ég kann að vera góðar manneskjur sem bera virðingu fyrir öðrum. Í mínum einfalda huga verða þau einungis þannig merkileg. Og góðir Íslendingar.

Testing testing

Skohh, ég mundi lykilorðið. Er einhver hérna?

Tíminn og bloggið

Tíminn forðast mig. Enda veit hann að ég háma hann bara í mig án þess að tyggja. Allt í einu fer að koma að sumarfríi. Og ég var rétt að byrja vinnuárið. Og ég kann ekkert annað ráð til að hægja á tíma en að horfa á Kallakaffi™, og það er tvíeggjað sverð.

Að öllu óbreyttu get ég bara ferðast áfram um tímann á nokkuð jöfnum hraða. Hratt. Ekkert sýnir mér þann hraða betur en krakkarnir mínir, sem vaxa svo í brakar.

Sumarfríið verður stutt þetta árið, til að fagna blessunarlega ágætri verkefnastöðu í því sem hr. Haarde kaus einhverntíman að kalla tímabundna efnahagslægð. Sem er vel orðað. Því að hún er tímabundin. Bundin við nokkur ár í mesta lagi. Reyndar er hún um 12 millibör, sem er ansi mikið fyrir lægð.

Ég ætla að fara að ráði vinkonu minnar og taka mér sumarfrí í bloggeríinu. Nema mér detti eitthvað sniðugt í hug. Ég örblogga á Twitter bæði .:hér:. og .:hér:.

Hafið það gott í sumar og megi æðri máttarvöld að eigin vali blessa það sem þið takið ykkur fyrir hendur.

Næsta Síða →